Með lífið í lúkunum
Í hlaðvarpinu Með lífið í lúkunum fær HeilsuErla til sín einstaklinga úr ýmsum áttum sem hafa þekkingu á fjölbreyttum sviðum heilsu og einnig fólk sem hefur á einn eða annan hátt jákvæð áhrif á samferðafólk sitt.
Markmiðið er að skapa rými fyrir einlægt og opið spjall til þess að kynnast sem fjölbreyttustum leiðum til þess að huga að heilsunni. t.d. varðandi geðheilsu, líkamlega heilsu, mataræði, svefn, raddheilsu, tannheilsu, fjárhagslega heilsu, sköpunargleði, kynheilbrigði og margt fleira.
Með lífið í lúkunum
52. Kvenlíkaminn er algjör töffari. Þorgerður Sigurðardóttir
Þátturinn er í boði Nettó og Unbroken
Í þættinum ræðir Erla við Þorgerði Sigurðardóttur, kvenheilsusjúkraþjálfara um ýmis málefni sem tengjast heilsu kvenna og hafa áhrif á lífsgæði þeirra, t.d. þvagleka, legsig, endaþarmssig, blöðrusig, ofspennu í grindarbotni og endómetríósu. Þær ræða einnig um áhrif meðgöngu og fæðingar á kvenlíkamann, mæðravernd eftir fæðingu, íþróttakonur, mikilvægi grindarbotnsæfinga og hvernig er best að framkvæma þær, kynlíf, breytingarskeið kvenna, mikilvægi slökunar og öndunar og margt fleira.
Þorgerður er einn fremsti sérfræðingur landsins á sviði kvensjúkdóma- og fæðingarsjúkraþjálfunar og hefur starfað í kvenheilsu í 30 ár. Hún starfar á flestum sviðum kvenheilsusjúkraþjálfunar og býður einnig upp á mæðravernd eftir fæðingu en það er nátengt mastersrannsókn og doktorsrannsóknum hennar.
Þorgerður segir að það sé mikivægt að líta á manneskjuna sem heild því sjaldan standa mál ein og sér, verkir geta t.d. verið tengdir áfallasögu eða andlegum veikindum.
Þorgerður segir að margar konur haldi að þær séu einar í heiminum að glíma við eitthvert vandamál og hafa jafnvel átt þrautargöngu í heilbrigðiskerfinu. Þá segir hún að það sé mikilvægast af öllu að það sé hlustað á konur og að þær viti að það er víða til hjálp. Í flestum tilvikum er hægt að bæta heilsu, líðan og lífsgæði.
Áhugasamir geta fundið upplýsingar á heimasíðu Þorgerðar og einnig á Instagram og Facebook
Fylgdu HeilsuErlu á Instagram!