Með lífið í lúkunum
Í hlaðvarpinu Með lífið í lúkunum fær HeilsuErla til sín einstaklinga úr ýmsum áttum sem hafa þekkingu á fjölbreyttum sviðum heilsu og einnig fólk sem hefur á einn eða annan hátt jákvæð áhrif á samferðafólk sitt.
Markmiðið er að skapa rými fyrir einlægt og opið spjall til þess að kynnast sem fjölbreyttustum leiðum til þess að huga að heilsunni. t.d. varðandi geðheilsu, líkamlega heilsu, mataræði, svefn, raddheilsu, tannheilsu, fjárhagslega heilsu, sköpunargleði, kynheilbrigði og margt fleira.
Með lífið í lúkunum
50. Sá einhverfi og við hin. Jóna Á. Gísladóttir
Þátturinn er í boði Nettó og Unbroken
Í þættinum ræðir Erla við Jónu Á. Gísladóttur rithöfund, markþjálfa og móður um foreldrahlutverkið, einhverfu, mikilvægi þess að foreldrar barna með sérþarfir gleymi ekki að sinna sjálfum sér og sambandinu og muni eftir því að huga að líkamlegri og andlegri vellíðan og séu óhrædd við að þiggja aðstoð. Þá ræða þær einnig um andlega heilsu, mikilvægi húmors, hvernig það er mikið auðveldara að gefa öðrum ráð heldur en að fara eftir þeim sjálfur, hið eilífa samviskubit og það að vera ekki nóg.
Jóna er að eigin sögn miðaldra húsmóðir í úthverfi sem elskar að sitja og hekla og hlusta á skemmtilegar hljóðbækur eða hlaðvörp og er einnig forfallinn golfari. Hún segist enn vera að ákveða hvað hún ætli að verða þegar hún verður stór en hana langaði alltaf að verða rithöfundur og dýralæknir.
Jóna var einn vinsælasti bloggari landsins þegar ,,bloggið" var upp á sitt besta. Hún skrifaði þá einlægar og skemmtilegar bloggfærslu um fjölskyldulífið og tilveruna og meðal annars um það hvernig það er að ala upp dreng með einhverfu. Hún skrifar enn af og til pistla á Facebook og er með eindæmum fyndin og hreinskilin og alltaf með húmorinn að vopni.
Ég hvet alla sem ekki hafa lesið eða hlustað á bókina hennar, Sá einhverfi og við hin, að gera það sem allra fyrst. Bókin snertir hjartað. Ótrúlega hreinskilin og einlæg skrif og Jóna nefnir svo margt sem aðrir þora ekki að segja upphátt en líklegast flestir hugsa. Hún er einstaklega lunkin við að koma tilfinningum í orð og þessi bók er einfaldlega dásamleg hlustun, bæði hlátur og grátur.
Ég get svo glatt ykkur hlustendur hlaðvarpsins með því að Jóna segist vera með fullt af hugmyndum í kollinum og stefnir á að gefa út eitthvað á ritvellinum t.d. á storytel og ýtir því vonandi úr vör sem fyrst.
p.s. Ég biðst velvirðingar á smá hnökrum í hljóðinu.
Fylgdu HeilsuErlu á Instagram!