Með lífið í lúkunum
Í hlaðvarpinu Með lífið í lúkunum fær HeilsuErla til sín einstaklinga úr ýmsum áttum sem hafa þekkingu á fjölbreyttum sviðum heilsu og einnig fólk sem hefur á einn eða annan hátt jákvæð áhrif á samferðafólk sitt.
Markmiðið er að skapa rými fyrir einlægt og opið spjall til þess að kynnast sem fjölbreyttustum leiðum til þess að huga að heilsunni. t.d. varðandi geðheilsu, líkamlega heilsu, mataræði, svefn, raddheilsu, tannheilsu, fjárhagslega heilsu, sköpunargleði, kynheilbrigði og margt fleira.
Með lífið í lúkunum
46. Hættu aldrei að láta þig dreyma. Eva Ruza Miljevic
Í þættinum spjallar Erla við Evu Ruzu skemmtikraft, útvarpskonu, velgjörðasendiherra SOS með meiru um heilsu, húmor, hreyfingu, heimsókn í SOS-barnaþorp, áhugann á fræga fólkinu í Hollywood, draumastarfið, sjálfsmynd og mikilvægi þess að sinna andlegu heilsunni.
Það er ekki að undra að Eva Ruza sé einn vinsælasti skemmtikraftur landsins því hún á afar auðvelt með að létta lund landans. Hún tekur sjálfri sér ekki of hátíðlega og það er alltaf stutt í húmorinn. Þó að hún elski að hafa sig til þá segir hún að það sé alltaf mjög stutt í króatísku sveitakonuna.
Eva Ruza segist fyrst og fremst vera mamma og eiginkona, hún er mikil fjölskyldukona og segir fjölskylduna vera númer 1, 2 og 10. Hún er búin að vera með Sigga sínum í 24 ár og saman eiga þau 15 ára tvíbura.
Eva er með útvarpsþátttinn Bráðavaktina á K100 með Hjálmari vini sínum og þeir sem þekkja til vita að það er aldrei lognmolla í kringum þau tvö. Hún segir húmor vera besta meðalið við andlegri og líkamlegri heilsu og að það sé engin víma betri en að hlæja eða vera í galsa. Hún segir að við megum aldrei missa húmorinn úr lífi okkar, hann er svo smitandi.
Eva hugsar vel um heilsuna og byrjar alla daga á því að hreyfa sig, annað hvort á Boot camp æfingu, nokkrum ferðum í Himnastiganum í Kópavogi eða fer út að hlaupa. Hún segist alltaf mæta á æfingu sama hversu þreytt hún sé, bæði fyrir félagsskapinn og fyrir sálina. Hún hefur líka alltaf hugsað vel um mataræðiði og hefur alveg frá unglingsaldri verið meðvituð um að líkaminn þyrfti gott ,,bensín".
Eva segir að þrátt fyrir að það sem allir haldi sé hún rólegasta manneskja sem þú getur fundið, mjög heimakær en þó hvatvís með sumt og vill oft að hlutirnir gerist núna!
Hún er með fallega sýn á lífið, er þakklát og segist vera að lifa drauminn sinn. Hún hvetur líka alla hlustendur til þess að hætta aldrei að láta sig dreyma!
Fylgdu HeilsuErlu á Instagram!