Með lífið í lúkunum
Í hlaðvarpinu Með lífið í lúkunum fær HeilsuErla til sín einstaklinga úr ýmsum áttum sem hafa þekkingu á fjölbreyttum sviðum heilsu og einnig fólk sem hefur á einn eða annan hátt jákvæð áhrif á samferðafólk sitt.
Markmiðið er að skapa rými fyrir einlægt og opið spjall til þess að kynnast sem fjölbreyttustum leiðum til þess að huga að heilsunni. t.d. varðandi geðheilsu, líkamlega heilsu, mataræði, svefn, raddheilsu, tannheilsu, fjárhagslega heilsu, sköpunargleði, kynheilbrigði og margt fleira.
Með lífið í lúkunum
42. Styrkleikar, sjálfsmynd og sjálfsrækt. Bjarni Fritzson
Í þættinum ræðir Erla við Bjarna Fritzson rithöfund, íþróttamann og eiganda sjálfstyrkingarfyrirtækisins Út fyrir kassann um jákvæða sjálfsmynd, núvitund, samskipti, sjálfsrækt, sjálfstraust, gildi og hvernig við hjálpum börnum okkar að byggja upp góða sjálfsmynd með því að aðstoða þau við að finna sína styrkleika.
Sjálfur segist Bjarni fyrst og fremst vera fjölskyldufaðir úr Breiðholtinu og íþróttanörd sem elskar að efla fólk og hjálpa því að blómstra. Hann heldur meðal annars námskeiðin Öflugir strákar, Vertu óstöðvandi fyrir ungt íþróttafólk og foreldranámskeiðið Efldu barnið þitt. Hann hefur gefið út fjölda bóka um Orra óstöðvandi og Sölku ofl.
Bjarni er með B.S gráðu í sálfræði og hefur sótt framhaldsmenntun á meistarastigi í félags-vinnusálfræði og jákvæðri sálfræði. Hann er fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta, þjálfari 20 ára landsliðs Íslands og meistaraflokks karla hjá ÍR.
Bjarni segist ekki vilja vera fastur í einhverju formi og lætur svolítið vaða á allt. Hann reynir stöðugt að ögra sér og halda áfram að vaxa. Hann er með brennandi ástríðu að vopni í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur.
Bjarni notar mikið núvitund í sinni kennslu og þjálfun. Núvitund er að núllstilla sig. Í grunninn erum við að þjálfa skynfærin í að fókusa á það sem við erum að gera og það sem skiptir mál. Skilja eftir það sem er búið og það sem er að fara að gerast og allar hugsanir og detta bara inn í viðburðinn sem við erum í.
Heilsa er það mikilvægasta í mínu lífi segir Bjarni. Heilsa er eitthvað sem maður tekur sem sjálfsögðu þegar maður er ungur og fattar að skiptir öllu máli þegar maður eldist.
Þetta snýst um lífsgæði og að vera í jafnvægi, þ.e. heilsa er að mér líði vel og ég geti gert það sem ég vil gera. Auk þess er mikilvægt að rækta félagsleg tengsl, þau skila 30% af hamingjunni þinni en peningar aðeins 1%
Bjarni bendir á að íþróttir, tómstundir og áhugamál eru mikilvæg fyrir alla og hjálpa einstaklingum að þróa með sér leiðtogahæfileika, góð samskipti og fleira sem er góð þjálfun fyrir lífið sjálft.
Áhugasamir geta fundið nánari upplýsingar um námskeið og fyrirlestra Bjarna hér.
Samstarfsaðilar þáttarins eru Nettó og Spíran.
Fylgdu HeilsuErlu á Instagram!